tveir eða sjö?

Það eru fleiri en ég sem eru mjög undrandi á þeirri hugmynd Stöðvar 2 að vilja bjóða tveimur forsetaframbjóðendum í kappræður næstkomandi sunnudag. Eins og staðan er í dag þá eru þeir sjö.

Maður sem titlaður er ritstjóri á 365 sagði að þarna ætti bara að fá til spjalls þá tvo frambjóðendur sem hæst skora í skoðanakönnunum, Ólaf Ragnar Grímsson – sitjandi forseta og Þóru Arnórsdóttur – fjölmiðlamann í fríi. Eins konar tveggja turna tal. Það er alveg rétt að þau hafa skorað lang hæst í skoðanakönnunum en ástæðan er einfaldlega sú að þau hafa verið mest áberandi í fjölmiðlum af þeim sem í framboði eru.

Reglur um kosningabaráttu við forsetakjör held ég að séu afar lausar í reipunum og mætti gjarnan herða þær til muna. Til dæmis mætti setja þá reglu að ef einhver umfjöllun ætti sér stað þá þyrfti að gera öllum jafn hátt undir höfði. 26. grein fjölmiðlalaga kveður reyndar á um þetta óháð viðfangsefni að það skuli gera viðmælendum jafn hátt undir höfði. En menn vilja meina að um túlkunaratriði sé að ræða. Látum lögfræðinga og löggjafarvaldið eiga við það.

Það bara einfalt réttlæti, einfalt lýðræði og einföld kurteisi að leyfa öllum að tjá sig jafnt.

Share Button