Ort

Ort

Veturinn 2013 – 2014 var ég í Háskólagátt Háskólans á Bifröst. Í Íslenskuáfanga þurftum við Unnur Eygló Bjarnadóttir að vinna verkefni þar sem alls konar greiningar voru gerðar og æfing í notkun myndlíkinga og svoleiðis dóts. Í lokin átti svo að skrifa 200 orða lýsingu á stað sem við þekkjum vel og nota eitthvað af því dótaríi sem verkefnið snérist um. Okkur samdist svo að ég tæki þetta síðasta og sagði við Unni : Treystu mér, ég ætla að gera svolítið brjálað en það skal takast. Fjórir klukkutímar í skil og ég skildi Unni eftir með allt hitt í verkefninu. Eftir tvo tíma sendi ég henni 200 orða bálkinn til yfirlestrar.  Hún var að klára sitt og mitt var samþykkt eftir að nokkrar fljótfærnisvillur voru lagfærðar. Sumt í þessu er kannski pínu vafasamt eftir ströngustu reglum en þetta fékk úrvalsummæli kennara.

Í misgrænum túnfæti tíguleg
tróna í látlausum stílum,
eitt sinn þau virtust svo vígaleg
voru svo útkeyrð af bílum.

Þau vaka og vísa mér mun styttri leið
um vetur, upplýst í friði
er ramba ég rjóður það rólega skeið
þá rýkur oft upp í mér sviði.

Ég sé þar oft sýnir í gráleitri móðu
samt fer ég oft á þeirra fund,
Þau eru mér kot og keyrslunnar fóður
og kæta mig sérhverja stund.

Tíðirnar allar þá taka þau móti mér
ég treysti þeim ávallt til fulls.
Eg gef þeim allt sem þau óska sér
og þá skal það vera í formi gulls

Þau alls engan yfir sig láta þar ganga
og undir þau fer ekki neinn
og hjá þeim vill helst enginn linnulaust hanga
Því húsakostur finnst ekki einn.

Vindurinn lemur þau vesæl og hljóð,
og veitir sjónum hrollköldum hjá.
Hann blæs eins og brjálaðra graðhesta stóð
sem brokkar um háloftin grá.

Margir þar leita sér leiðar og skjóls
en leyfist samt ekki að á.
Þau bera þar brúkendur jakka og kjóls
og blítt þau á eftir þeim sjá

Ég ákaft þau tigna og treyst þeim ég hef
og túlkað með háværum söng,
því undir stýri ég alls ekki sef
ef ek ég um Hvalfjarðargöng.

Share Button