Viðburðaríkt ár 2016

Viðburðaríkt ár 2016

Árið 2016 er ekki liðið en það er fjandi lítið eftir. Það má segja að kúrsinn hefi verið settur svolítið 20. desember 2015 þegar ég kom heim úr skiptinámi frá Hollandi. Daginn eftir að ég kom heim heimsótti ég foreldra mína og áttaði mig á því að mamma var mun verr stödd af heilabilun sinni heldur en mig hafði grunað. Hún þekkti mig ekki. En eftir að henni hafði verið bent á að þetta væri ég þá virtist hún átta sig. Næstu dagar voru litaðir af því að reyna að hitta hana sem mest til að beita upprifjuninni. Á aðfangadag fær hún heilablæðingu og var farið í snarhasti með hana inn á spítala. Hún kom aldrei aftur heim.  Eftir áramótin var farið með hana á Vífilstaði þar sem hún lést síðan 25. febrúar. Jarðarförin fór fram 3. mars og var gott betur en full Garðakirkja. Þetta var erfiður tími en samt vorum við sátt við að hún skyldi ekki þurfa að þjást meira.

Seinni hluta mars ákváðum ég, pabbi og Hildur Þóra að skreppa austur á Hornafjörð. Pabbi sótti okkur snemma morguns og við fórum af stað. Mér leið eitthvað asnalega í farþegasætinu og sótti það fast að fá að keyra. Ég tók við í Vík. Þegar komið var á Klaustur var einhver syfja í mannskapnum svo sest var í hádegismat og kaffi þar. Pabba leið eitthvað asnalega að vera farþegi þannig að hann tók aftur við akstrinum. Ég settist farþegamegin og fór að dotta og svaf bara helling. Svo gerist það að pabbi dottar undir stýri og við þjótum yfir veginn og útaf, sem verður til þess að bíllinn lendir fyrst í harðfenni, stekkur út í drullu og leggst á hliðina frekar mjúklega. Enginn meiddist og bíllinn skemmdist merkilega lítið, en þó nóg til þess að honum var ekki ekið aftur til Reykjavíkur.

Á meðan allt þetta gerðist hélt ég mínu striki í skólanum en það hefur reyndar orðið sífellt erfiðara og hef ég grun um að ég sé einfaldlega ekki búinn að taka út þau sálarlegu áhrif sem svona sterk áföll hafa á mann.  Reyndar var ég í námskeiði sem heitir Byltingastjórnun – massamiðlun þar sem fjallað var áhrif fólks sem kemur fram undir merkjum ákveðinnar hugmyndafræði og hyggst valda straumhvörfum. Námskeiðið riðlaðist dálítið þar sem upp í hendurnar á okkur komu mótmæli sem ákveðið var að gera verkefni um. Námskeiðið fór að snúast um þessi mótmæli og gerðum við talsvert viðamikla rannsókn á þeim með viðtölum og vettvangsgreiningu. Þetta var skemmtilegt og æðislegt fólk sem vann að þessu.

Ég fékk vinnu um miðjan maí sem ég þáði með miklum þökkum. Ég fór að vinna hjá Ljósinu sem er endurhæfingar-og meðferðarstöð fyrir krabbameinsgreinda. Upphaflega átti ég að sjá um innleiðingu sjúkradagbókarkerfis en endaði með því að gera handbók um það, sinna auglýsingagerð, vera tölvukall og sitthvað fleira. Þetta var bráðskemmtilegt sumar.

Þann 19. júní – á kvennréttindadaginn – var aska mömmu jarðsett í duftreitinn við Garðakirkju og gerðum við svolítið úr þeim degi. Í fríinu sem ég tók mér frá vinnu í sumar héldum við upp á afmælið hennar mömmu þann 7. júlí, en hún hefði orðið sjötug þann dag.  Við fórum að leiði hennar í Garðakirkjugarði og jarðse Við gerðum vel við okkur í mat og drykk á þann hátt sem mamma hefði notið. Við fórum smávegis austur í bústað og í upphafi ágústmánaðar skruppum við hjónin til Cardiff í rómantíska ferð. Þetta var í fyrsta sinn sem við förum til útlanda ein til þess að slaka á og njóta lífsins. Af hverju Cardiff? Ásdís var þar í nokkra mánuði veturinn 1995 – 1996 sem au-pair hjá Kolbrúni vinkonu sinni sem var í námi. Það var gaman að sjá hennar slóðir auk þess sem við fórum í Dr. Who Experience – sem er safn tileinkað sjónvarpsþáttunum um Dr. Who.

Í maí ákvað ég í einhverju stundarbrjálæði að skrá mig í 10km hlaup Reykjavíkurmaraþons. Ég mætti því galvaskur á hlaupdag, frekar illa undirbúinn og nokkuð viss um að ég myndi gefast upp á miðri leið af eintómum aumingjaskap. Ég lagði í hann ásamt þúsundum annarra og skokkaði smá leið í upphafi. Gangan gekk vel fyrir sig og það var svo mikil hvatning á leiðinni að maður hafði engan tíma til þess að vera með eymd og volæði og eymingjaskap. Veðrið var skínandi gott og allir í sólskinsskapi. Mér leið vel alla leiðina og nýtti ég drykkjarstöðvarnar vel og vandlega. Ég þrammaði þessa leið á 1 klst og 52 mín (frá því hlaupið var ræst) en 1 klst og 47 mín frá því ég steig á ráslínuna og þar til ég skrönglaðist yfir hana aftur. Ég var einn af þeim allra síðustu yfir línuna í mínum aldurshópi en mér var alveg sama. Ég kláraði þetta, og ég kláraði þetta á a.m.k. 13 mínútum skemmri tíma en ég hafði ætlað mér.  Ég hafði útbúið mér playlista á Spotify fyrir þetta og þegar ég fór yfir línuna söng Stevie Wonder “Don’t you worry about a thing.” Ég hafði gert ráð fyrir í playlistanum að ef ég færi yfir 2 tímana þá myndi glymja í eyrunum á mér “Hetja er fallin…” í laginu Valhöll með Skálmöld. Það kom ekki fyrr en Hafdís frænka hafði gefið mér vatnsglas við komuna í mark. Það tók mit tvo til þrjá daga að jafna mig á þessu brölti en við komuna í mark ákvað ég strax að taka 10km að ári og bæta tímann. Það stendur enn til og tími til kominn að byrja að þjálfa sig ef ég á að geta bætt þennan tíma.

Viku síðar var ég sestur á stól á sviðinu á Café Rósenberg með bassann sem ég keypti í Hollandi. Þar spilaði ég með Eyvindi vini mínum á Melodica festival. Það gekk svo prýðilega þrátt fyrir tæknivandræði. Ástæðan fyrir því að ég sat var tvíþætt. Annars vegar til að draga ekki of mikinn fókus frá Eyvindi og hins vegar var ég eitthvað skrýtinn í bakinu þannig að ég tók enga áhættu. Á nýju ári er síðan ætlunin að spila helling því það er svo gaman.

Haustið gekk í garð með sínum skólahamagangi og ásamt því að vera í þremur námskeiðum þá hóf ég skrif á BA-ritgerð. Önnin leið full hratt fyrir minn smekk og voru það markar vökunæturnar sem fylgdu þessari ritgerð. En ég leyfði mér þó í þessu brölti að fara á tónleika Todmobile og Nik Kershaw í Eldborgarsal Hörpu. En svo hófst ruglið fyrir alvöru. Ég einbeitt mér svo að ritgerðinni að ég gleymdi hálfpartinn einu námskeiðanna og endaði á því að skrifa verkefni, lesskýrslu og lokaritgerð á síðustu stundu. Ég hafði verið mjög illa fókuseraður á BA-ritgerðina svo ekki kom þetta neitt sérstaklega vel við það ferli auk prófs sem ég þurfti að taka (og þarf að taka aftur). Ég fór svo aftur í ritgerðina og vann eins og skepna. Hreinsaði út, bætti við og reyndi að skapa einhvern fókus. Svo kom það tímabil sem kalla mætti panic-tímabilið. Á síðasta sólarhringnum sem ég sat við skrifin endurskrifaði ég niðurstöðukaflann þrisvar. Um kl. 13.00 á skiladegi gat ég ekki meira, ég var þurrausinn, andlega búinn og líkamlega mjög þreyttur. Mæli ekki með svona vinnubrögðum.

Í dag er vika síðan ég skilaði ritgerðinni og satt best að segja hef ég ekki hugmynd um það hvernig ég stend, náði ég? Féll ég? Ef ég næ þá er mér nokkuð sama hvaða einkunn ég fæ því ég var ekki sáttur við verkið sem ég skilaði en ég gat bara ekki meira!

En nú ætla ég að undirbúa jólin og njóta samveru með fjölskyldunni. Ég vona að þú, lesandi góður, berir þá gæfu að halda gleðileg jóla eða þá hátíð sem þér tilheyrir á þessum árstíma. Svo óska ég þér og þínum farsældar á nýju ári!

 

Share Button