Hvert örstutt spor

Það hefur mikið verið rætt um breytingu á áfengislögum undanfarin ár. Sitt sýnist hverjum. Frumvarpið og öll umræðan finnst mér hafa einskorðast við eitt atriði sem er að mínu mati atriðið sem ætti ekki einu sinni að vera í frumvarpinu. Umræðan hefur snúist um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Ég er ekki hlynntur því – alls ekki. Lýðheilsusjónarmiðin eru vissulega góð og gild. En ég er á því að svona breytingar megi gera í fullri sátt við neytendur, þrýstihópa og markaðinn. Fyrsta skrefið er að einkavæða rekstur Áfengisverslunar Ríkisins og rekstur vínbúðanna án frekari breytinga á smásölurekstrinum. Vínbúðirnar verði seldar sem sér einingar en ekki sem heildarkeðja til að koma í veg fyrir einokun eða fákeppni en kaupendur fái þó að nota vörumerkið Vínbúðin áfram um tíma vegna aðlögunar á markaði. Það hvetur til þess að fleiri sérverslanir með áfengi opni. Eins og með annan spennandi rekstur hér á landi þá býst ég við að það grípi um sig gullgrafaraæði og merkjanleg aukning á áfengissölu verður í nokkra mánuði. En aukin sala þarf ekki að þýða aukna neyslu – þó það bendi sterklega til þess. Eftir nokkur ár tel ég að staðan verði sú að það verði komin sérverslun með áfengi við hlið flestra stærri matvöruverslana og nokkrar sælkerabúðir með áfengi verði komnar af stað með mikið úrval af áður illfáanlegum áfengum drykkjum. Hins vegar tel ég að breyta beri áfengisgjaldinu þannig að hætt verði að reikna gjald út frá styrkleika drykkjar heldur verði farið að rukka á jöfnunarforsendum, ákveðin prósenta af hverri seldri einingu – jafnt yfir allt. Auðvitað vill maður sjá áfengisgjaldið fellt niður en það verður líklega seint. Eftir nokkur ár má svo skoða það hvort grundvöllur sé fyrir lagasetningu um sölu áfengis í matvöruverslunum – sem mér finnst samt óþarfi ef vínbúð verður staðsett við hlið marvöruverslana.

Share Button