Ég er ekki tabú

Ég er ekki tabú

Í síðasta pistli mínum ræddi ég atvik í sumar sem hefur legið þungt á mér. Það hefur hjálpað mér mikið undanfarna klukkutíma. Ég hef verið að lesa stöðufærslur á Facebook frá fólki sem hefur verið greint með geðsjúkdóma. Elsku stelpan mín hún Hildur Þóra steig fram og sagði frá þunglyndi sínu og kvíða. Svavar Knútur vinur minn sagði frá sínum kvíða. Ég ætla svo sem ekki að nafngreina fleiri en fjölmargir sem ég þekki hafa sagt sögu sína og ég er búinn að vera í svolitlu áfalli undanfarna klukkutíma. Ekki vegna þess að mér finnist ég ekki gera nóg fyrir mitt fólk heldur vegna þess að ég er þess full viss að ég sé með einkenni þunglyndis og kvíða. Að sitja einn í útlöndum kvöld eftir kvöld og hugsa um sjálfan sig og velta fyrir sér þeim brestum sem mann hrjá þá kemur eitt og annað upp úr kafinu.

Alveg frá því ég byrjaði að eiga í ástarsambandi við hana Ásdísi mína þá hef ég passað mig á því að sökkva mér ekki í pælingar sem gætu leitt til þess að ég myndi komast að niðurstöðu þess efnis að ég væri með einhverja veilu því veilur hafa kallað á endalausa feluleiki og ég er þannig að ég nenni ekki feluleikjum. Þeir sem þekkja mig vita að ég tala opinskátt um mig og aðra. Í fyrsta sinn í 19 ára ástarsambandi okkar Ásdísar Huldar stöndum við hvort í sínu lagi án hvors annars. Hún sinnir tvöföldum heimilisstörfum á Íslandi (eins og undanfarin ár reyndar) og ég hálfföldum hér í Haag. Við tölum stundum saman á Skype og spjöllum oft á Facebook. En ég hef haft gríðarlegan tíma til að skoða hvað þessi stóri skrokkur minn hefur að geyma í hugskotum sínum.

Í dag hef ég séð fólk nefna eftirfarandi hluti:

  • Erfiðleikar með að eiga almenn samskipti við fólk
  • Veigra sér við að panta pizzu vegna kvíða fyrir símtalinu
  • „Loka sig af“ í tölvunni og gera eiginlega ekkert annað en vera þar
  • Kvíða því að standa á sviði og þurfa að tala við fjölda fólks sem býst við endalausum fimmaurabrandaraflaumi
  • Vera alltaf að reyna að sanna sig fyrir fólki með því að bresta í sama brandaragírinn
  • Að geta ekki tekið neitt alvarlega
  • Að þurfa að stíga á svið og vona að maður spili ekki feilnótur eða gleymi textum við lög
  • Að geta ekki einu sinni stokkið út í búð þó það sé ekkert til að borða
  • Að vaka á öðrum tímum en aðrir heimilismenn og fara seint að sofa til að þurfa ekki að takast á við daginn.

Allt þetta á við mig. En sem betur fer virðist þetta ekki (enn) vera á alvarlegu stigi en ég þarf að passa mig, sérstaklega þar sem ég er staddur svo langt frá mínu fólki.

Ekki misskilja mig, mér líður vel hérna í vonda vonda Evrópusambandinu og dvölin hér hjálpar mér að kynnast aftur þeim manni sem ég lagði til hliðar árið 1996. Manninum sem nennti ýmsu, manninum sem var alltaf til í að hresa aðra við. Sá maður lætur lítið á sér kræla í dag. Vissulega er maður orðinn gamall og ráðsettur en fjandakornið, þetta er ekki eðlilegt.

Alla tíð hef ég borið fyrir mig kostnaði við eitt og annað þegar kemur að sjálfum mér. Ég gjörnýti föt, ég fer sjaldan til tannlæknis því það er dýrt og þar sem Hildur Þóra sækir tíma hjá sálfræðingi þá veit ég hvað þeir kosta og ég sé bara ofsjónum yfir því að við þurfum bæði að fara að borga sálfræðingum fyrir meðferð. En núna verð ég einfaldlega að hætta að hugsa svoleiðis. Þó ég sé á námslánum þá má ég ekki verða þunglyndi og kvíða að bráð í miðju námsferli. Það er bara svo einfalt.

Svo má vel vera að þetta sé einhver óskilgreind móðursýki í mér… en það er í öllu falli betra að láta tékka sig en að hrapa í djúpið og fuðra þar upp.

Ég nefndi síðustu bloggfærslu. Ég ætla ekki að afsaka neitt af því sem ég gerði en ég er ekki frá því að það sem ég gerði sé afleiðing af miklum hæðum og lægðum sem ég hef verið að upplifa eftir að Hildur Þóra greindist með þunglyndi.

Þessi hressi kall er stundum ekkert svo hress. Það örlar stundum á tári í auga trúðsins.

Ég er kannski með geðveilu sem ekki hefur verið greind en ég er hreint ekki tabú!

Share Button