Að geta ekkert sagt

Að geta ekkert sagt

Oft gerum við mistök og hlaupum á okkur. Stundum er það léttvægt og stundum er það mjög þungbært. Slíkt getur sett allt á annan endann. Stundum ætlum við að vera góða fólkið en endum á því að verða skíthælar. Stundum metum við aðstæður ekki rétt og misskiljum það sem okkur er sagt.

Ég lenti í einu slíku atviki í sumar. Ég ætla ekki að segja hvað ég gerði eða hvernig afleiðingarnar hafa orðið fyrir aðra. En þetta hefur legið þungt á mér alveg síðan og ég hef átt erfitt með að sætta mig við sjálfan mig. Það er ekki svo að hugarástand mitt sé hættulegt sjálfum mér en það hefur verið betra. Ég særði fólk með því sem ég sagði og gerði, ég fór með rangt mál og ég breytti rangt gagnvart fólki sem alla tíð hefur verði mér mjög gott. Það þótti mér í raun erfiðast, að hafa gert þessu fólki þennan óleik. Fólk sem mér þykir vænt um. Fólk sem ég get líklega aldrei litið framan í aftur án þess að dauðskammast mín fyrir það hver ég er og hvað ég hef gert. Þarna hafa brýr verið brenndar og jörð sviðin.

Það furðulega í þessu tilviki er samt það að ég taldi mig vera að gera rétt, ég taldi mig vera góða manninn. Ég misskildi, rangtúlkaði og framkvæmd mín bar þess vitni og því fór sem fór. Þarna er vafalaust hvatvísi á ferð en engu að síður gríðarlegt hugsunarleysi og fljótfærni sem skrifast eingöngu á minn furðulega huga. Ég hef haldið mig svolítið frá samskiptum við téða einstaklinga og fólk sem í kringum þá er einfaldlega af hreinni skömm.

Ég hafði vissulega samband við hlutaðeigandi einstaklinga og baðst afsökunar en ég hef ekki enn getað fyrirgefið sjálfum mér og mun líklega seint gera það.

Ég ætla mér hins vegar ekki að láta þetta atvik verða mér einhver fjötur um fót í framtíðinni heldur mun þetta atvik verða mér lexía sem ég kem til með að nýta mér fyrir sjálfan mig í mínum framtíðarstörfum. Mistök eru til að læra af þeim. Brýr sem brenndar hafa verið eru vissulega sumar yfir fljót sem erfitt er að brúa en það má alltaf reyna nýja brúarsmíð. En það gerist þegar tíminn til þess er réttur og í þessu tilviki er það ekki mitt að ákveða það.

Hér í Hollandi hef ég haft tíma til að hugsa, tíma til að gera upp mál með sjálfum mér. Á gönguferðum mínum hér í borg hef ég getað hugsað.  Öllum gjörðum fylgir ábyrgð og í þessu máli er ábyrgðin öll mín enda ég sá sem tjáði mig. Hér hef ég hins vegar getað hreinsað hugann og það er gott. Ég hef getað fókuserað á ákveðna hluti gert þá upp í huganum og lagt þá til hliðar. Sumt er þannig að maður þarf ekki að líta til baka en annað er þannig að maður á það til í hugarskotinu sér til áminningar.

Hlúum hvert að öðru, pössum orð okkar, hugsum áður en við tölum og verum viss um hvað við segjum ef um mjög alvarlega hluti er að ræða. Ég brenndi mig illa á þessu og það eiga vafalaust margir eftir að gera það en því færri sem það gera, því betra.

Ég ætlast til einskis annars en að ég passi mig sjálfur!

Share Button