Hár

Lengi vel var ég spurður hvers vegna ég safni hári. Sumir halda að það sé vegna þess að ég telji mig einhvern töffara með sítt hár. Aðrir halda að ég sé að sanna eitthvað. Enn aðrir telja að ég sé í einhverjum mótþróa. Ég vil bara taka það fram að ekkert af þessu er ástæða síða hársins. Mér finnst gott að vera síðhærður. Bad hair day er ekki issue og mér líður prýðilega með þetta hár.

Það má vel vera að ég láti skerða hár mitt einhvern tímann en það verður bara þegar mér dettur það í hug. Spurningar á borð við hvort ég ætli nú ekkert að fara að láta klippa mig fá alltaf svarið nei. Ef þetta gerist þá gerist það, annars ekki. Ég vil bara fá að vera eins og ég vil vera, ég nenni ekki að fylgja duttlungum samfélags sem hræðist álit náungans.

Þegar ég er spurður hvað ég haldi að fólk segi um mig þá er svarið einfalt: Fólk má hafa sínar skoðanir á persónu minni en hvernig ég lít út er einfaldlega mitt mál en ekki samfélagsins. Ég hlusta vissulega á þungarokk. En ég hlusta líka á popp, klassík, jazz, tilraunatónlist, danstónlist og allan fjandann. Hárið tengist ekki tónlistinni en er bara bónus sem útlitsþáttur tónlistarmanns.

Svo er jú alltaf gott ef vísa þarf á mig einhvers staðar að geta bent á síðhærða karlmanninn… í stað þess að benda á þennan feita. Útlitið skiptir ekki máli, það sem að innan er skiptir öllu máli. Þetta á við um mig, gagnkynhneigðan, hvítan, miðaldra karlmanninn. Þetta á líka við um þig – hvernig sem þú upplifir þig eða lítur út.

Share Button