Það stefndi í leiðindasumar…

Það stefndi í leiðindasumar…
Notalegasti staður á Íslandi, Mjóifjörður

Í upphafi sumars leit út fyrir að ég myndi sitja, bora í nefið og væla yfir atvinnuleysi og almennu aðgerðarleysi eftir að sumarönninni á Bifröst lauk. Ég hafði sótt um akstur hjá rútufyrirtækjum en þau sögðu að ég þyrft að geta byrjað um miðjan maí en ekki 1. júlí eins og útlit var fyrir. Ég sá auglýst störf fyrir háskólanema á vegum Vinnumálastofnunar og ég sótti um fjögur þeirra sem þar voru í boði. Ég fékk þrjú nei og var því orðinn algerlega vonlaus um að fá nokkuð að gera. Ég var hræddur um að skiptinámið mitt í haust væri í uppnámi því engar væru tekjurnar til að dreifa. En ég fékk vinnu. Ég er búinn að vera að sýsla með kórnótur í Flensborgarskólanum og haft gaman af. Þetta virtist óyfirstíganlegur hjallur í fyrstu en það stefnir í að það verði komið á gott ról þegar ég hætti í lok þessarar viku.

Afi á Hornafirði

Gísli Arason, afi minn.

Ég sá ekki fram á að fara mikið í sumar en ég hafði ákveðið að skreppa austur á Hornafjörð að hitta afa minn – sem ég og gerði um miðjan júlí. Engin önnur ferðalög höfðu verið í bígerð lengi fram eftir sumri. En skömmu áður en við fórum til Hornafjarðar barst okkur boð í brúðkaup austur á Mjóafirði sem yrði rúmri viku síðar (vinahjón sem ákváðu bara að drífa sig í þessu).  Þess vegna rúllaði ég fyrst um 900 km Hornafjarðarhelgina og svo 1.400 kílómetra Mjóafjarðarhelgina. það gera 2.300 km. á rúmri viku. Helgina eftir það (Verslunarmannahelgina) var svo farið upp í Svínadal í níræðisafmæli með tilheyrandi viðbótarbíltúrum. Það má því segja að í þessa helgarrúnta hafi ég rúllað um 2.500 km. Og það var útlit fyrir eitt skrepp í upphafi sumars.

Nú eru bara nokkrir dagar í að ég yfirgefi landið – eins og fram hefur komið sirka milljón sinnum. Ég bendi á nöldursíðuna mína þar sem ég ætla að reyna að röfla um dvöl mína og gjörðir í Niðurlöndum. En ég gef engin loforð hvað það varðar. Námið gengur fyrir – bæði kúrsarnir í Haag og þessi eini á Bifröst.

Meira síðar…

Share Button