Ég er aumingi

Þórbergur Þórðarson, rithöfundur og skáld, orti eitt sinn ljóð sem heitir „Ég er aumingi”. Það ljóð hefur ekkert með efni þessa pistils að gera nema þá helst titillinn.

Undanfarin ár hafa margir verið á leið til Noregs eða eitthvert annað. Fólk virðist bera sig aumlega og vill jafnvel losna af þessu „bansetta náskeri” og losna við það „skítapakk” sem stjórnar landinu. Ég hef svo sem aldrei tekið neinn beinan þátt í þessum bölmóði og í mesta lagi sagt að maður ætti nú að fara að hunskast í burtu en aldrei haft meiri alvöru í því en svo að nokkuð hafi gerst. Samkvæmt þeim háværustu þá er ég jafnvel gunga og aumingi að fara ekki. Æði… ég er aumingi.

Síðla vetrar ákvað ég að taka næsta haust með trompi. Ég sótti um að gerast skiptinemi við háskólann í Haag í Hollandi. Þegar það spurðist út þá fóru sumir hávaðabelgirnir að spyrja mig hvort ég kæmi nokkuð aftur. Ég sagðist nú rétt vona það enda ætti ég fjölskyldu hér á landi sem færi ekki með mér. Ég held að í kjölfarið hafi ég séð allar útgáfur af því að fórna höndum og heyrt öll möguleg tilbrigði við dæs. Mér var bent á að hér væri ekkert að hafa og ég væri bara að eyða peningum í það að fljúga aftur heim. Æði… ég er aumingi.

Nei ég er ekki að flytja fyrir fullt og fast enda er þetta bara hluti af námi mínu við háskólann í Grábrókarhrauni – oftar kallaður Bifröst. En hvað gerist eftir að þeim tíma lýkur er ekki gott að segja. Ætli ég finni mér ekki bara góða vinnu og taki jafnvel eins og eina mastersgráðu með því, enda verð ég líklega 48 ára þegar ég útskrifast úr mínu fyrsta háskólanámi. Já, ég er 45 ára um þessar mundir og orðinn þokkalega stór og þarf eiginlega að verða eitthvað fyrst ég er orðinn svona stór – eiginlega allt of stór á þverveginn. Ég tók þá ákvörðun sumarið 2013 að klára stúdentspróf í Háskólagáttinni á Bifröst og fara svo í BA nám. Ég hef margoft verið spurður að því eftirá hvers vegna ég hafi ekki gert það fyrr. Svar mitt hefur verið einfalt, „Ég var bara ekki tilbúinn.” Já, Æði… ég er seinþroska aumingi.

Ég hef unnið alls konar störf sem hafa krafist þess að vera kallaður aumingi. Ég hef keyrt strætó, setið við símann í þjónustuveri tölvufyrirtækis og unnið á bókasafni. Allt kjörnir staðir til að kalla viðstadda aumingja ef svo ber undir.

Auðvitað er ég ekki alltaf aumingi en látum það liggja milli hluta.

En svona erum við Íslendingar bara. Já, svona erum við, alveg satt, svona skelfilega dómhörð út í það sem við vitum ekki rassgat um. Ég er nefnilega svona líka, dómharður og djöfulsins ruddi. Við erum bara svona Íslendingar. Nei annars, við erum ekki svona öll, bara virkir í athugasemdum… og ekki einu sinni allir þar.

Það væi ekkert óeðlilegt að áætla að eitt helsta samélagsmein okkar séu alhæfingar. Við heyrum á hverjum degi að ríkisstjórnin sé að eyðileggja land og þjóð. Við heyrum að Kjarninn sé langbesti fjölmiðilinn. Þetta eru alhæfingar. Það má svo sem vel vera að þessar alhæfingar séu sannar – það er ekki mitt að meta það. En ég held að öll umræða í samfélaginu (bæði opinber og óopinber) þurfi á því að halda að fólk hugsi áður en það tali og skrifi. Ég er afskaplega sammála því sem Þóra Arnórsdóttir sagði, í umræðuþætti fyrir forsetakosningarnar 2014, um að þegar fólk hefur skrifað eitthvað sem það ætlar sem innslag á samfélagsmiðla að standa upp og hugsa málið áður en ýtt er á send / enter. Ég hef sjálfur gerst sekur um að senda miður góðar athugasemdir inn á samfélagsmiðlana og verð eflaust alla ævi að bíta úr nállinni með það. En í seinni tíð hef ég reynt að passa mig á því að láta ekki frá mér eins óþægilega hluti á netið en það sleppa þó í gegn leiðinda truntulæti einstaka sinnum – sem er þó allt of oft.

Alhæfingar samfélagsmiðlanna virðast valda múgsefjun í sumum málum og umræðan virðist litast mjög af því. Það eru svo mörg mál sem eru í umræðunni sem fólk hefur ekki alltaf næga þekkingu á og grípur bara það sem því finnst líklgast til að flestir séu sammála. Það er kannski ofmat – ég veit það ekki.

Æ,  akkúrat núna varð ég þess heiðurs aðnjótandi að berja eina af þessum flugum sem kallast lúsmý… Það þýðir aðeins eitt, undir sæng og sofa og vona að bitin verði fá.

Share Button