Í tónlistinni

Illgresi

Nú er allt að fara af stað í tónlistinni… og ég rétt að detta í sumarfrí. Bad Days byrjaðir að skipuleggja hluti og ég að taka afleysingu með Illgresi í kvöld á lögum sem ég hef eiginlega aldrei heyrt og þar af leiðandi aldrei spilað. Það verður eitthvað áhugavert. Illgresi spilar bluegrass tónlist og tengda stíla. Ég held að ég verði dulítið út úr kú en samt ekki. Ég hef hlustað á flest lögin einu sinni í gegn – en ekki meira enda kom þetta bara upp seinnipartinn í gær. Gaman að þessu.

Á næstu dögum á ég von á því að Bjarki – vinur minn – Karlsson hafi samband vegna þess að söngkonan – Helga Guðný (yngri dóttir mín)- var svo kvefuð þegar hún söng fyrir mig í orðastað Bergþóru – konu Njáls á Bergþórshvoli – að það þykir öruggara að taka þann part upp aftur. Ég get ekki beðið því þetta er lag eftir mig og mér þykir vænt um að Bjarki skyldi treysta mér fyrir þessu verkefni. Það eru allar líkur á því að þetta fari á diskinn sem hann er að gera en ég svo sem fer ekkert í fýlu þó það verði ekki – verkið er framkvæmt og lagið er til. Hvetur mig áfram í að búa til lög.

Varsjárbandalagið tók gigg um daginn eins og áður hefur komið fram og einhverjar hugmyndir eru um að það líði minna en eitt og hálft ár í næsta gigg – slík var skemmtunin. Ég vona bara að af því verði.

Í deiglunni er að setja saman tvö bönd á næstunni. Annað þjóðlagapönkband og hitt pjúra þungarokksband. Þetta kemur til viðbótar við þau bönd sem ég er í, skólann sem tekur mikinn tíma og kórinn sem ég er í. Líklega fer ég ekki aftur í Vocal Project aftur fyrr en að loknu námi. Svo kemur það í ljós hvað af þessu verður. En skólinn hefur forgang, síðan fjölskylda og því næst allt hitt.

Share Button