Reiði guðsmanna

Reiði guðsmanna

TrúMikið óskaplega finnst mér ömurlegt þegar fólk urrar út á fésbókina og annars staðar að múslimar séu ofbeldistrúarbrögð og að gróft ofbeldi verði daglegt brauð hér á landi ef ein moska fær að rísa. Ég vil benda á að m.a. í strang-kaþólskum löndum Suður-Ameríku eða hjá „vinum okkar“ í Bandaríkjum Norður-Ameríku er ástandið víða ekki betra. Við fáum bara engar fréttir af því þar sem fjölmiðlar vesturlanda bera okkur bara fréttir af þeim sem ákveðið hefur verið að nota sem óvin. Ég held að fólk ætti að líta í eigin barm og hugsa aðeins lengra. Fjölmiðlar bera okkur fréttir en bara ekki alltaf þær fréttir sem við ættum að sjá og heyra. Í kenniritum múslima, kristinna, heiðinna og allra stærri trúarbragða er klifað á því að umburðarlyndi sé lykillinn að góðu lífi. Það sem gerir okkar vestræna samfélag svo andsnúið nýjum straumum í samfélagið er þessi endalausa útnárahræðsla sem hrjáir Íslenska þjóð. Þetta er sama hræðsla og þegar bændur börðust hart gegn því að fá síma fyrir um 100 árum. Þetta er sama hræðsla og hefur kristallast í umræðunni um ESB. Þetta er sama hræðsla og hefur knúið umræðuna um mosku í Reykjavík. Það eru litlir klofningshópar út úr hinum hefðbundnu trúarbrögðum sem túlka sín kennirit og reglur á sinn hátt. Þegar upp er staðið þá er það bara þeirra vandamál – en ekki okkar. Hvað myndum við gera ef það kæmi upp amish kommúna hér á landi sem krefðist þess að fá landsvæði samkvæmt sínum forsendum? Þar er hlutverkum kynjanna skipt all rækilega niður eftir fyrirfram ákveðinni aðferð. Þar þarf fólk – og sérstaklega konur – að klæðast á mjög ákveðinn hátt. Ef gyðingar koma og vilja byggja sér synagogu, ætla menn að berjast með kjafti og klóm gegn þeim? En hvað ef KuKluxKlan nær fótfestu hér? Mér finnst þetta jafnast fullkomnlega á við það að mótmæla harðlega opnun sendiráða frá hinum og þessum þjóðum sem og allri þeirri atvinnustarfsemi sem kann að koma frá öðrum þjóðum – sbr. álverin öll. Það er þessi endalausa hræðsla um að missa eina af fjórum kartöflum af diskinum, missa spón úr aski sínum, að allsnægtahlaðborðið geri mann ekki lengur spikfeitan heldur bara vel búttaðan. Ég skora á fólk að horfa á þessi mál í stóra samhenginu en ekki því samhengi sem DV og Mogginn leggja upp.

Share Button