Lágkúra Íslenskra Útvegsmanna? (LÍÚ)

Það er allt að verða snar-snældu-kex-tjúllað á landinu vegna aflaheimildafrumvarpsins sem Steingrímur Jóhann Sigfússon setti fram nýverið. Útgerðarmenn eru háskælandi um að nú sé lífsafkoma þeirra í hættu. Eru þetta sannindi eða bara grátur manna sem eiga ekki fyrir fimmta fjölskyldubílnum? Það má svo sem vera millivegur en hverju sætir þetta?

Ég rakst á eftirfarandi fullyrðingu á Fésbókinni í gær:

Allir útgerðarmenn samanlagt borguðu aðeins 300 miljónir í tekjuskatta árið 2010 þrátt fyrir hreinan hagnað upp á 45 miljarða. Þeir borguðu svo í málamyndagjald 3 miljarða í auðlindagjald. Restina 42 þúsund miljónir, fóru að mestum hluta í vasa 70 fjölskyldna sem eiga 80% af kvótanum. Á síðustu 3-4 árum hafa þeir haft í hreinan hagnað 200 miljarða, af því hafa farið 6-8 miljarðar í ríkissjóð. Enginn spyr hvar allir þessir peningar eru. Svo leigja þeir kílóið af þorsk kvóta á 290 krónur og af því fær ríkið 6 krónur. Ef þeir selja kvóta þá þurfa þeir ekki að borga söluskatt. Þrátt fyrir að það sé í skattalögum. Það hefur bara ekki tíðkast. Þessum aðilum hefur verið búið mjög þægilegt umhverfi. Það þarf þess vegna að spyrja þá sem hafa stjórnað landinu undanfarna áratugi hvers vegna þetta sé svona.

Ég veit svo sem ekki hverjar heimildirnar eru fyrir þessu eða hvort þetta er satt. En miðað við þetta þá spyr maður sig af hverju útgerðarmenn séu að væla. Nú má gera því skóna að peningarnir sem ganga af þessum fjárhæðum séu að einhverju marki notaðir í afborganir af lánum vegna endurnýjunar skipa, búnaðar og rekstrar fiskvinnsluhúsa. En þarna er talað um hreinan hagnað svo það getur varla verið.

Hvað veit ég annars um þetta? Ég hef ekki kynnt mér það. En hvar liggur hundurinn grafinn? Ef þetta er hreinn hagnaður, hvert fara þá allir þessir peningar og af hverju er ekki verið að hirða meira af útgerðarmönnum?

Lítil fiskvinnslufyrirtæki hafa um langt skeið keypt fisk á markaði og unnið til útflutnings eða sölu innanlands. Þau þurfa að borga fullt gjald fyrir fiskinn og það gjald – miðað við klausuna hér að framan – rennur mestmegnis í vasa útgerðarmanna. Ættu þau að borga lægra gjald fyrir fiskinn þar sem þau skapa þjóðarbúinu tekjur með miklum útflutningi? Ættu útgerðirnar að slaka aðeins á gróðasjónarmiðunum til þess að möguleiki vinnslufyrirtækjanna á betri starfsskilyrðum verði meiri? Eða þarf að milda skattheimtuna á vinnslufyrirtækin en herða á útgerðinni?

Einhvern tímann heyrði ég af aðferð sem mig minnir að Slóvakíustjórn hafi notað (gæti verið einhvers staðar annars staðar). Það var lagður 15% skattur á allt, flatur skattur yfir allt  kerfið – engar undanþágur. Þetta var víst sáraeinfalt í framkvæmd og reddaði ríkissjóði og fjölmörgum fyrirtækjum. Enn fremur skilst mér að einstaklingar hafi haft það bara helvíti fínt við þær aðstæður. Ég veit að AGS ætlaðist til þess að 25% flatur skattur yrði lagður á allt á Íslandi meðan þeir voru við völd en Steingrímur J. sagði að þá færu allir á hausinn, fyrirtæki sem einstaklingar – ekki svo að skilja að það hafi ekki gerst en hann átti við í auknum mæli en þegar er orðið. En ég held að 15% skattur sé nær lagi. Um leið mætti fyrst um sinn gera fyrirtækjum auðveldara um vik að koma vörum sínum á framfæri með einhverjum reglum um álagningu. En ég er svo sem enginn hagfræðingur eða viðskiptafræðingur og hef ekki skoðað kenningar og annað tengt þessu. En þetta hljómar dálítið gáfulega í mín eyru.

Það þarf sem sagt að stokka upp í skattkerfinu. Einhverjir útgerðarmenn viðurkenndu það fyrir einhverjum árum að þeir gætu hæglega borgað talsvert meira í ríkissjóð. En núverandi frumvarp ríkisstjórnarinnar gengur (skilst mér) of langt í því að hirða af útgerðunum, Steingrímur Jóhann Sigfússon hefur viðurkennt það sjálfur – hans rök voru fyrir tímassetningu frumvarpsins að ef þetta ætti að gerast þá yrði það að gerast „núna“. Maður spyr sig þá hvers vegna hann spennir bogann svo hátt í innheimtuátt. Af hverju hann fór ekki hóflega af stað með mun styttri tímaramma með möguleika á stöðugri endurskoðun.

Ég held að þetta hljóti þegar allt kemur til alls að snúast um svo miklu meira en bara útgerðarmenn og þeirra fólk – starfsfólk og fjölskyldur. Þetta komi til með að hrinda af stað allsherjar endurskoðun á skattkerfinu

Nú er bara að sjá hvað Alþingi gerir.

Barátta LÍÚ er í algleymingi og aðferð þeirra er hreint ekki til eftirbreytni. Þessir örfáu skrifstofumenn skipa starfsmönnum sínum að leggja niður störf en fá um leið borguð laun. Þeir eru í mjög öflugri og hatrammri auglýsingaherferð sem staðið hefur all lengi. Þeir hafa efni á þessu… en ekki að borga í ríkissjóð. Með þessu eru útgerðarmenn að beita starfsmönnum sínum sem eins konar „human shield“ eins og gíslatökumenn með gíslana sína verjast skotum lögreglumanna. Þetta er dálítið gróf samlíking en mér finnst þetta ekkert ólíkt. Þetta leiðir mann að þeirri spurningu af hverju það séu ekki til lög og reglur sem banna vinnuveitendum að beita starfsfólki og búnaði sínum í pólitískum deilum. Það er vissulega rétt að útgerðarmönnum er heimilt að gera það sem þeim sýnist með fyrirtækin sín en mér finnst að það eigi að virða rétt fólks til starfa án aðkomu misviskulegra pólitískra framkvæmda og eins og áður segir, setja lög og reglur gegn svoleiðis ómennsku.

En LÍÚ er ekki eini aðilinn sem ber hausnum við steininn. Ríkisstjórnin virðist ekki hafa nokkurn vilja til þess að koma til móts við útgerðarmenn. Frumvarpinu virðist ekki mega breyta og á Alþingi eru menn farnir að rugla beinlínis. Þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar Græns Framboðs spurði í nótt hvort þingmaður Sjálfstæðisflokks væri ölvaður í ræðustól. Sú sem sat í forsetastól var þvoglumælt af þreytu, Árni Johnsen baðst afsökunar á einhverjum ummælum og það var eiginlega allt í tómu rugli, útgerðarmönnum og talsmönnum þeirra (Sjálfstæðisflokknum) til mikillar skemmtunar. Og svo eru Framsóknarmenn eins og rænulaus hæna ráfandi um á milli skoðana og lítil samstaða virðist vera á þeim bænum. En kergjan milli ríkisstjórnar og útgerðarmanna verður ekki leyst nema báðir aðilar séu viljugir til að setjast saman niður og finna leið til að koma til móts við hvorn annan. Það þurfa aðilar úr fiskvinnslu (litlu og stóru fyrirtækin), útgerð (litlu og stóru), verkalýðsfélögunum og ríkisvaldinu að hittast og ræða málið. Málinu á að fresta fram á haustþing og þá má setja frumvarpið fram með málamiðlunarbreytingum. Núverandi vinnubrögð eru hreint fáránleg – bæði hjá stjórnvöldum og útgerðarmönnum.

En hvað veit ég svosem, bara einn af sauðmeinlausum pöplinum sem ekkert er hlustað á því við eigum enga peninga til að auglýsa. En munum að góðir hlutir gerast hægt.

Viðbót skömmu síðar:

Ég sá stöðufærslu á Facebook sem leiðréttir fyrri tilvitnun hjá mér og með henni fylgja heimildir:

Vissir þú að:
– Hreinn hagnaður útgerðarinnar var 45 milljarðar árið 2010?
– Af þessu greiddu útgerðarmenn 3 milljarða í veiðigjald og 300 milljónir í tekjuskatt.
– 70 fjölskyldur högnuðust þannig um 41,7 milljarða árið 2010 sem gerir að meðaltali 596 milljónir á hverja fjölskyldu.
– Þessar fjölskyldur greiða ríkinu 6 krónur af hverju veiddu þorsk kílói.
– Börn þessara fjölskyldna erfa veiðiréttinn að fiskimiðunum.
– Þín börn geta ekki veitt nema borga börnum útgerðarmanna 290 krónur á hvert veitt þorskkíló.

Heimild: Skjal frá Alþingi

Share Button