Dagur 1263 í námi

Þann 30. ágúst 2013 birti ég pistil sem fjallaði um fyrsta dag í námi. Í dag, klukkan 12.00 lauk náminu formlega (ef ég hef ekki klúðrað prófinu sem ég var í). Ég hef ekki tekið saman fjölda verkefna eða prófa sem ég hef tekið en þau skipta hundruðum. Á þessum tæpu fjórum árum hef ég tekið stúdentspróf og nú klárað nám til BA gráðu. Ég fór í skiptinám og gerði eitt og annað mjög áhugavert. Meira um það síðar, mér fannst bara að þetta yrði að koma fram.

Ort

Veturinn 2013 – 2014 var ég í Háskólagátt Háskólans á Bifröst. Í Íslenskuáfanga þurftum við Unnur Eygló Bjarnadóttir að vinna verkefni þar sem alls konar greiningar voru gerðar og æfing í notkun myndlíkinga og svoleiðis dóts. Í lokin átti svo að skrifa 200 orða lýsingu á stað sem við þekkjum vel og nota eitthvað af því dótaríi sem verkefnið snérist um. Okkur samdist svo að ég tæki þetta síðasta og sagði við Unni : Treystu mér, ég ætla að gera svolítið brjálað en það skal takast. Fjórir klukkutímar í skil og ég skildi Unni eftir með allt hitt í verkefninu. Eftir tvo tíma sendi ég henni 200 orða bálkinn til yfirlestrar.  Hún var að klára sitt og mitt var samþykkt eftir að nokkrar fljótfærnisvillur voru lagfærðar. Sumt í þessu er kannski pínu vafasamt eftir ströngustu reglum en þetta fékk úrvalsummæli kennara.

Í misgrænum túnfæti tíguleg
tróna í látlausum stílum,
eitt sinn þau virtust svo vígaleg
voru svo útkeyrð af bílum.

Þau vaka og vísa mér mun styttri leið
um vetur, upplýst í friði
er ramba ég rjóður það rólega skeið
þá rýkur oft upp í mér sviði.

Ég sé þar oft sýnir í gráleitri móðu
samt fer ég oft á þeirra fund,
Þau eru mér kot og keyrslunnar fóður
og kæta mig sérhverja stund.

Tíðirnar allar þá taka þau móti mér
ég treysti þeim ávallt til fulls.
Eg gef þeim allt sem þau óska sér
og þá skal það vera í formi gulls

Þau alls engan yfir sig láta þar ganga
og undir þau fer ekki neinn
og hjá þeim vill helst enginn linnulaust hanga
Því húsakostur finnst ekki einn.

Vindurinn lemur þau vesæl og hljóð,
og veitir sjónum hrollköldum hjá.
Hann blæs eins og brjálaðra graðhesta stóð
sem brokkar um háloftin grá.

Margir þar leita sér leiðar og skjóls
en leyfist samt ekki að á.
Þau bera þar brúkendur jakka og kjóls
og blítt þau á eftir þeim sjá

Ég ákaft þau tigna og treyst þeim ég hef
og túlkað með háværum söng,
því undir stýri ég alls ekki sef
ef ek ég um Hvalfjarðargöng.

Viðburðaríkt ár 2016

Árið 2016 er ekki liðið en það er fjandi lítið eftir. Það má segja að kúrsinn hefi verið settur svolítið 20. desember 2015 þegar ég kom heim úr skiptinámi frá Hollandi. Daginn eftir að ég kom heim heimsótti ég foreldra mína og áttaði mig á því að mamma var mun verr stödd af heilabilun sinni heldur en mig hafði grunað. Hún þekkti mig ekki. En eftir að henni hafði verið bent á að þetta væri ég þá virtist hún átta sig. Næstu dagar voru litaðir af því að reyna að hitta hana sem mest til að beita upprifjuninni. Á aðfangadag fær hún heilablæðingu og var farið í snarhasti með hana inn á spítala. Hún kom aldrei aftur heim.  Eftir áramótin var farið með hana á Vífilstaði þar sem hún lést síðan 25. febrúar. Jarðarförin fór fram 3. mars og var gott betur en full Garðakirkja. Þetta var erfiður tími en samt vorum við sátt við að hún skyldi ekki þurfa að þjást meira.

Seinni hluta mars ákváðum ég, pabbi og Hildur Þóra að skreppa austur á Hornafjörð. Pabbi sótti okkur snemma morguns og við fórum af stað. Mér leið eitthvað asnalega í farþegasætinu og sótti það fast að fá að keyra. Ég tók við í Vík. Þegar komið var á Klaustur var einhver syfja í mannskapnum svo sest var í hádegismat og kaffi þar. Pabba leið eitthvað asnalega að vera farþegi þannig að hann tók aftur við akstrinum. Ég settist farþegamegin og fór að dotta og svaf bara helling. Svo gerist það að pabbi dottar undir stýri og við þjótum yfir veginn og útaf, sem verður til þess að bíllinn lendir fyrst í harðfenni, stekkur út í drullu og leggst á hliðina frekar mjúklega. Enginn meiddist og bíllinn skemmdist merkilega lítið, en þó nóg til þess að honum var ekki ekið aftur til Reykjavíkur.

Á meðan allt þetta gerðist hélt ég mínu striki í skólanum en það hefur reyndar orðið sífellt erfiðara og hef ég grun um að ég sé einfaldlega ekki búinn að taka út þau sálarlegu áhrif sem svona sterk áföll hafa á mann.  Reyndar var ég í námskeiði sem heitir Byltingastjórnun – massamiðlun þar sem fjallað var áhrif fólks sem kemur fram undir merkjum ákveðinnar hugmyndafræði og hyggst valda straumhvörfum. Námskeiðið riðlaðist dálítið þar sem upp í hendurnar á okkur komu mótmæli sem ákveðið var að gera verkefni um. Námskeiðið fór að snúast um þessi mótmæli og gerðum við talsvert viðamikla rannsókn á þeim með viðtölum og vettvangsgreiningu. Þetta var skemmtilegt og æðislegt fólk sem vann að þessu.

Ég fékk vinnu um miðjan maí sem ég þáði með miklum þökkum. Ég fór að vinna hjá Ljósinu sem er endurhæfingar-og meðferðarstöð fyrir krabbameinsgreinda. Upphaflega átti ég að sjá um innleiðingu sjúkradagbókarkerfis en endaði með því að gera handbók um það, sinna auglýsingagerð, vera tölvukall og sitthvað fleira. Þetta var bráðskemmtilegt sumar.

Þann 19. júní – á kvennréttindadaginn – var aska mömmu jarðsett í duftreitinn við Garðakirkju og gerðum við svolítið úr þeim degi. Í fríinu sem ég tók mér frá vinnu í sumar héldum við upp á afmælið hennar mömmu þann 7. júlí, en hún hefði orðið sjötug þann dag.  Við fórum að leiði hennar í Garðakirkjugarði og jarðse Við gerðum vel við okkur í mat og drykk á þann hátt sem mamma hefði notið. Við fórum smávegis austur í bústað og í upphafi ágústmánaðar skruppum við hjónin til Cardiff í rómantíska ferð. Þetta var í fyrsta sinn sem við förum til útlanda ein til þess að slaka á og njóta lífsins. Af hverju Cardiff? Ásdís var þar í nokkra mánuði veturinn 1995 – 1996 sem au-pair hjá Kolbrúni vinkonu sinni sem var í námi. Það var gaman að sjá hennar slóðir auk þess sem við fórum í Dr. Who Experience – sem er safn tileinkað sjónvarpsþáttunum um Dr. Who.

Í maí ákvað ég í einhverju stundarbrjálæði að skrá mig í 10km hlaup Reykjavíkurmaraþons. Ég mætti því galvaskur á hlaupdag, frekar illa undirbúinn og nokkuð viss um að ég myndi gefast upp á miðri leið af eintómum aumingjaskap. Ég lagði í hann ásamt þúsundum annarra og skokkaði smá leið í upphafi. Gangan gekk vel fyrir sig og það var svo mikil hvatning á leiðinni að maður hafði engan tíma til þess að vera með eymd og volæði og eymingjaskap. Veðrið var skínandi gott og allir í sólskinsskapi. Mér leið vel alla leiðina og nýtti ég drykkjarstöðvarnar vel og vandlega. Ég þrammaði þessa leið á 1 klst og 52 mín (frá því hlaupið var ræst) en 1 klst og 47 mín frá því ég steig á ráslínuna og þar til ég skrönglaðist yfir hana aftur. Ég var einn af þeim allra síðustu yfir línuna í mínum aldurshópi en mér var alveg sama. Ég kláraði þetta, og ég kláraði þetta á a.m.k. 13 mínútum skemmri tíma en ég hafði ætlað mér.  Ég hafði útbúið mér playlista á Spotify fyrir þetta og þegar ég fór yfir línuna söng Stevie Wonder “Don’t you worry about a thing.” Ég hafði gert ráð fyrir í playlistanum að ef ég færi yfir 2 tímana þá myndi glymja í eyrunum á mér “Hetja er fallin…” í laginu Valhöll með Skálmöld. Það kom ekki fyrr en Hafdís frænka hafði gefið mér vatnsglas við komuna í mark. Það tók mit tvo til þrjá daga að jafna mig á þessu brölti en við komuna í mark ákvað ég strax að taka 10km að ári og bæta tímann. Það stendur enn til og tími til kominn að byrja að þjálfa sig ef ég á að geta bætt þennan tíma.

Viku síðar var ég sestur á stól á sviðinu á Café Rósenberg með bassann sem ég keypti í Hollandi. Þar spilaði ég með Eyvindi vini mínum á Melodica festival. Það gekk svo prýðilega þrátt fyrir tæknivandræði. Ástæðan fyrir því að ég sat var tvíþætt. Annars vegar til að draga ekki of mikinn fókus frá Eyvindi og hins vegar var ég eitthvað skrýtinn í bakinu þannig að ég tók enga áhættu. Á nýju ári er síðan ætlunin að spila helling því það er svo gaman.

Haustið gekk í garð með sínum skólahamagangi og ásamt því að vera í þremur námskeiðum þá hóf ég skrif á BA-ritgerð. Önnin leið full hratt fyrir minn smekk og voru það markar vökunæturnar sem fylgdu þessari ritgerð. En ég leyfði mér þó í þessu brölti að fara á tónleika Todmobile og Nik Kershaw í Eldborgarsal Hörpu. En svo hófst ruglið fyrir alvöru. Ég einbeitt mér svo að ritgerðinni að ég gleymdi hálfpartinn einu námskeiðanna og endaði á því að skrifa verkefni, lesskýrslu og lokaritgerð á síðustu stundu. Ég hafði verið mjög illa fókuseraður á BA-ritgerðina svo ekki kom þetta neitt sérstaklega vel við það ferli auk prófs sem ég þurfti að taka (og þarf að taka aftur). Ég fór svo aftur í ritgerðina og vann eins og skepna. Hreinsaði út, bætti við og reyndi að skapa einhvern fókus. Svo kom það tímabil sem kalla mætti panic-tímabilið. Á síðasta sólarhringnum sem ég sat við skrifin endurskrifaði ég niðurstöðukaflann þrisvar. Um kl. 13.00 á skiladegi gat ég ekki meira, ég var þurrausinn, andlega búinn og líkamlega mjög þreyttur. Mæli ekki með svona vinnubrögðum.

Í dag er vika síðan ég skilaði ritgerðinni og satt best að segja hef ég ekki hugmynd um það hvernig ég stend, náði ég? Féll ég? Ef ég næ þá er mér nokkuð sama hvaða einkunn ég fæ því ég var ekki sáttur við verkið sem ég skilaði en ég gat bara ekki meira!

En nú ætla ég að undirbúa jólin og njóta samveru með fjölskyldunni. Ég vona að þú, lesandi góður, berir þá gæfu að halda gleðileg jóla eða þá hátíð sem þér tilheyrir á þessum árstíma. Svo óska ég þér og þínum farsældar á nýju ári!

 

Er bloggið dautt?

Það mætti halda það. Ég skrifaði einhvern tímann fjálglega um það að ég ætlaði nú að minnka stórlega notkun mína á Facebook. Það virkaði í korter. Nú þarf ég að taka mig á hvað það varðar. Ég eyði allt of miklum tíma á Facebook og allt of litlum í að læra og sinna fjölskyldunni. En jæja, best að láta þetta ekki taka frá sér tíma líka núna. Meðfylgjandi er mynd af koníaki á Saga Class…

Takk elsku mamma!

Í dag klukkan 15.00 verður mamma min jarðsungin frá Garðakirkju a Álftanesi. Þvílík kjarnakona. Hún söng í kórum, starfaði með leikfélögum, var í kvennfélagi og tók þátt í alls konar tímabundnum verkefnum. Hún hafði samt alltaf tíma til að sinna fjölskyldunni. Þegar Hildur Þóra fæddist þá hafði hún uppi mikinn áróður um að barnabörnin ættu að verða fimm. Hún sagðist myndi kaupa rútu til að ferja hópinn. Barnabörnin urðu tvö og voru stelpurnar gimsteinarnir hennar ömmu sinnar. Þá hafði ég sumsé lokið því hlutverki nokkuð löngu áður. Hvern hefði grunað þegar við fórum til Ítalíu árið 2006 í tilefni sextugsafmælis hennar að tíu árum síðar væri hún ekki lengur með okkur. Þetta er enn svolítið fjarlæg hugsun. Veikindi mömmu voru mjög erfið og er líklegt að þau hafi varað mun lengur en við vissum. En undir það síðasta einangraðist hún meira og meira inni í sjálfri sér. Það var óskaplega sárt að sjá þessa lífsglöðu, fjörugu og skemmtilegu konu hverfa inn í tómið með Alzheimier sjúkdómnum. Það tók líka mikið á að sjá pabba þurfa að hálfpartinn einangra sig frá allt of mörgu vegna þess að hann þurfti að sinna mömmu. Hann hefur staðið sig eins og hetja… nei, ekki eins… hann er hetja. Margir hefðu bugast á því að þurfa að taka mikið á þessu einn – sérstaklega síðasta hálfa árið sem mamma lifði. Þetta tekur á okkur öll en það friðar okkur samt að nú sitja hún og amma einhvers staðar og hlægja hátt.

Í Morgunblaðinu í dag er minningargrein eftir mig annars vegar og dætur mínar hins vegar. Þær fylgja hér með.

***

Magnhildur GísladóttirÍ dag verður jarðarför merkustu konu sem ég hef þekkt. Hún sinnti ýmiss konar félagsmálum, var um árabil áhugaleikari og tónlistarkona. Þessi kona var líka einn af mínum allra bestu vinum. Já, mamma mín er dáin. Mikið óskaplega sem ég sakna hennar.

Það er algengt að afkvæmin séu ekki alls kostar sammála foreldrum sínum og þannig var það stundum með okkur mömmu. En það var alltaf stutt í sáttavilja hjá okkur báðum.

Það var mjög margt sem tengdi okkur mömmu  en mestu tengingarnar voru helst mikill tónlistaráhugi og mikið dálæti á Stevie Wonder. Þegar ég var fjögurra ára sagði ég henni að ég ætlaði mér að verða Stevie Wonder þegar ég yrði stór. Það hefur ekki gengið eftir að fullu.

Svo var það húmorinn. Við mamma gátum flissað eins og smástelpur yfir einhverjum endalausum fíflagangi sem við ein skildum og þá þurfti oft lítið til. Mamma hafði mikið dálæti á sjónvarpsþáttum Spaugstofunnar og tók þá marga upp á VHS spólur sem hún gat svo horft á endalaust aftur og aftur og alltaf hlegið. Einnig hélt hún mikið upp á útvarpsþættina „Úllen dúllen doff“ sem voru í Ríkisútvarpinu á áttunda áratug síðustu aldar. Þegar heilabilun var farin að gera vart við sig þá var diskurinn sem gerður var upp úr téðum útvarpsþáttum líklega það skemmtilegasta sem hún vissi. Það var mesta tengingin mín við hana síðustu vikurnar sem hún lifði. Við reyndum að tala við hana en oft svaraði hún engu. En þegar ég fór að þylja upp heilu atriðin af þessum geisladiski þá uppskar ég hlátur og bros. Það er mér dýrmætt í dag.

Mamma var áhugaleikari á yngri árum. Hún tók þátt í sýningum leikfélaganna á Hornafirði og á Akureyri. En þegar við fluttum „suður“ frá Akureyri 1977 hætti hún að leika að mestu. Hún reyndar kom fram í nokkrum skemmtiatriðum á þorrablótum Kvenfélags Bessastaðahrepps en lét leiklistina annars eiga sig. Mamma var fjölhæf, falleg og fjörug kona. Hún söng svo fallega, gat spilað á píanó og var gott betur en liðtæk með gítargarminn sinn á mannamótum. Þegar ég var barn og unglingur sungum við mikið saman við ýmis tækifæri. Þegar ég byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð lagði hún hart að mér að sækja um að ganga í kórinn þar. Ég fékk inngöngu í kórinn og síðan þá hef ég sungið í kórum og má því segja að hún beri fulla ábyrgð á áhuga mínum á kórsöng.

Elsku mamma mín. Nú er þinn smitandi dillandi hlátur þagnaður en ég kem alltaf til með að bjóða þér að senda kveðju í Óskalög sjúklinga með kærri kveðju til yfirlæknisins eins og kom fram í leikþætti í „Úllen dúllen doff“. Takk fyrir allt elsku mamma og gæddu þér nú á svamptertunni í sjeniversleginum ásamt því að spila á orgelið, þegar það er frostlaust.

***

Magnhildur GísladóttirTilhugsunin um að þú sért farin frá okkur er sár en þó er það léttir því nú þjáist þú ekki lengur. Eftir sitja margar góðar minningar sem við áttum með þér. Öll þau skipti sem við vorum í pössun eða gistum hjá þér og allar ferðirnar niður í fjöru þegar þið afi áttuð heima á Álftanesi. Þegar við spiluðum, dönsuðum og skemmtum okkur saman, allar leiksýningarnar og sinfóníutónleikarnir og svo mikið meira. Þú ítrekaðir alltaf við okkur systurnar að bursta tennurnar, borða hollt og hreyfa sig, sem okkur systrunum fannst alveg út í hött þegar við vorum litlar en skiljum betur núna.

Þú varst alltaf mikið fyrir sprell og grín, alveg fram til dauðadags. Alltaf þegar við komum í heimsókn til að „passa“ þig var plötunni „Úllen dúllen doff“ skellt á fóninn. Þú varst líka mjög mikil félagsvera.

Nú ertu komin á betri stað, eflaust ertu á kvenfélagsfundi, kóræfingu og líka komin á fullt í leikfélaginu.

Þín verður sárt saknað.

Hildur Þóra og Helga Guðný