Er bloggið dautt?

FordrykkurÞað mætti halda það. Ég skrifaði einhvern tímann fjálglega um það að ég ætlaði nú að minnka stórlega notkun mína á Facebook. Það virkaði í korter. Nú þarf ég að taka mig á hvað það varðar. Ég eyði allt of miklum tíma á Facebook og allt of litlum í að læra og sinna fjölskyldunni. En jæja, best að láta þetta ekki taka frá sér tíma líka núna. Meðfylgjandi er mynd af koníaki á Saga Class…

Takk elsku mamma!

Magnhildur GísladóttirÍ dag klukkan 15.00 verður mamma min jarðsungin frá Garðakirkju a Álftanesi. Þvílík kjarnakona. Hún söng í kórum, starfaði með leikfélögum, var í kvennfélagi og tók þátt í alls konar tímabundnum verkefnum. Hún hafði samt alltaf tíma til að sinna fjölskyldunni. Þegar Hildur Þóra fæddist þá hafði hún uppi mikinn áróður um að barnabörnin ættu að verða fimm. Hún sagðist myndi kaupa rútu til að ferja hópinn. Barnabörnin urðu tvö og voru stelpurnar gimsteinarnir hennar ömmu sinnar. Þá hafði ég sumsé lokið því hlutverki nokkuð löngu áður. Hvern hefði grunað þegar við fórum til Ítalíu árið 2006 í tilefni sextugsafmælis hennar að tíu árum síðar væri hún ekki lengur með okkur. Þetta er enn svolítið fjarlæg hugsun. Veikindi mömmu voru mjög erfið og er líklegt að þau hafi varað mun lengur en við vissum. En undir það síðasta einangraðist hún meira og meira inni í sjálfri sér. Það var óskaplega sárt að sjá þessa lífsglöðu, fjörugu og skemmtilegu konu hverfa inn í tómið með Alzheimier sjúkdómnum. Það tók líka mikið á að sjá pabba þurfa að hálfpartinn einangra sig frá allt of mörgu vegna þess að hann þurfti að sinna mömmu. Hann hefur staðið sig eins og hetja… nei, ekki eins… hann er hetja. Margir hefðu bugast á því að þurfa að taka mikið á þessu einn – sérstaklega síðasta hálfa árið sem mamma lifði. Þetta tekur á okkur öll en það friðar okkur samt að nú sitja hún og amma einhvers staðar og hlægja hátt.

Í Morgunblaðinu í dag er minningargrein eftir mig annars vegar og dætur mínar hins vegar. Þær fylgja hér með.

***

Magnhildur GísladóttirÍ dag verður jarðarför merkustu konu sem ég hef þekkt. Hún sinnti ýmiss konar félagsmálum, var um árabil áhugaleikari og tónlistarkona. Þessi kona var líka einn af mínum allra bestu vinum. Já, mamma mín er dáin. Mikið óskaplega sem ég sakna hennar.

Það er algengt að afkvæmin séu ekki alls kostar sammála foreldrum sínum og þannig var það stundum með okkur mömmu. En það var alltaf stutt í sáttavilja hjá okkur báðum.

Það var mjög margt sem tengdi okkur mömmu  en mestu tengingarnar voru helst mikill tónlistaráhugi og mikið dálæti á Stevie Wonder. Þegar ég var fjögurra ára sagði ég henni að ég ætlaði mér að verða Stevie Wonder þegar ég yrði stór. Það hefur ekki gengið eftir að fullu.

Svo var það húmorinn. Við mamma gátum flissað eins og smástelpur yfir einhverjum endalausum fíflagangi sem við ein skildum og þá þurfti oft lítið til. Mamma hafði mikið dálæti á sjónvarpsþáttum Spaugstofunnar og tók þá marga upp á VHS spólur sem hún gat svo horft á endalaust aftur og aftur og alltaf hlegið. Einnig hélt hún mikið upp á útvarpsþættina „Úllen dúllen doff“ sem voru í Ríkisútvarpinu á áttunda áratug síðustu aldar. Þegar heilabilun var farin að gera vart við sig þá var diskurinn sem gerður var upp úr téðum útvarpsþáttum líklega það skemmtilegasta sem hún vissi. Það var mesta tengingin mín við hana síðustu vikurnar sem hún lifði. Við reyndum að tala við hana en oft svaraði hún engu. En þegar ég fór að þylja upp heilu atriðin af þessum geisladiski þá uppskar ég hlátur og bros. Það er mér dýrmætt í dag.

Mamma var áhugaleikari á yngri árum. Hún tók þátt í sýningum leikfélaganna á Hornafirði og á Akureyri. En þegar við fluttum „suður“ frá Akureyri 1977 hætti hún að leika að mestu. Hún reyndar kom fram í nokkrum skemmtiatriðum á þorrablótum Kvenfélags Bessastaðahrepps en lét leiklistina annars eiga sig. Mamma var fjölhæf, falleg og fjörug kona. Hún söng svo fallega, gat spilað á píanó og var gott betur en liðtæk með gítargarminn sinn á mannamótum. Þegar ég var barn og unglingur sungum við mikið saman við ýmis tækifæri. Þegar ég byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð lagði hún hart að mér að sækja um að ganga í kórinn þar. Ég fékk inngöngu í kórinn og síðan þá hef ég sungið í kórum og má því segja að hún beri fulla ábyrgð á áhuga mínum á kórsöng.

Elsku mamma mín. Nú er þinn smitandi dillandi hlátur þagnaður en ég kem alltaf til með að bjóða þér að senda kveðju í Óskalög sjúklinga með kærri kveðju til yfirlæknisins eins og kom fram í leikþætti í „Úllen dúllen doff“. Takk fyrir allt elsku mamma og gæddu þér nú á svamptertunni í sjeniversleginum ásamt því að spila á orgelið, þegar það er frostlaust.

***

Magnhildur GísladóttirTilhugsunin um að þú sért farin frá okkur er sár en þó er það léttir því nú þjáist þú ekki lengur. Eftir sitja margar góðar minningar sem við áttum með þér. Öll þau skipti sem við vorum í pössun eða gistum hjá þér og allar ferðirnar niður í fjöru þegar þið afi áttuð heima á Álftanesi. Þegar við spiluðum, dönsuðum og skemmtum okkur saman, allar leiksýningarnar og sinfóníutónleikarnir og svo mikið meira. Þú ítrekaðir alltaf við okkur systurnar að bursta tennurnar, borða hollt og hreyfa sig, sem okkur systrunum fannst alveg út í hött þegar við vorum litlar en skiljum betur núna.

Þú varst alltaf mikið fyrir sprell og grín, alveg fram til dauðadags. Alltaf þegar við komum í heimsókn til að „passa“ þig var plötunni „Úllen dúllen doff“ skellt á fóninn. Þú varst líka mjög mikil félagsvera.

Nú ertu komin á betri stað, eflaust ertu á kvenfélagsfundi, kóræfingu og líka komin á fullt í leikfélaginu.

Þín verður sárt saknað.

Hildur Þóra og Helga Guðný

 

Hvert örstutt spor

Það hefur mikið verið rætt um breytingu á áfengislögum undanfarin ár. Sitt sýnist hverjum. Frumvarpið og öll umræðan finnst mér hafa einskorðast við eitt atriði sem er að mínu mati atriðið sem ætti ekki einu sinni að vera í frumvarpinu. Umræðan hefur snúist um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Ég er ekki hlynntur því – alls ekki. Lýðheilsusjónarmiðin eru vissulega góð og gild. En ég er á því að svona breytingar megi gera í fullri sátt við neytendur, þrýstihópa og markaðinn. Fyrsta skrefið er að einkavæða rekstur Áfengisverslunar Ríkisins og rekstur vínbúðanna án frekari breytinga á smásölurekstrinum. Vínbúðirnar verði seldar sem sér einingar en ekki sem heildarkeðja til að koma í veg fyrir einokun eða fákeppni en kaupendur fái þó að nota vörumerkið Vínbúðin áfram um tíma vegna aðlögunar á markaði. Það hvetur til þess að fleiri sérverslanir með áfengi opni. Eins og með annan spennandi rekstur hér á landi þá býst ég við að það grípi um sig gullgrafaraæði og merkjanleg aukning á áfengissölu verður í nokkra mánuði. En aukin sala þarf ekki að þýða aukna neyslu – þó það bendi sterklega til þess. Eftir nokkur ár tel ég að staðan verði sú að það verði komin sérverslun með áfengi við hlið flestra stærri matvöruverslana og nokkrar sælkerabúðir með áfengi verði komnar af stað með mikið úrval af áður illfáanlegum áfengum drykkjum. Hins vegar tel ég að breyta beri áfengisgjaldinu þannig að hætt verði að reikna gjald út frá styrkleika drykkjar heldur verði farið að rukka á jöfnunarforsendum, ákveðin prósenta af hverri seldri einingu – jafnt yfir allt. Auðvitað vill maður sjá áfengisgjaldið fellt niður en það verður líklega seint. Eftir nokkur ár má svo skoða það hvort grundvöllur sé fyrir lagasetningu um sölu áfengis í matvöruverslunum – sem mér finnst samt óþarfi ef vínbúð verður staðsett við hlið marvöruverslana.

Jólin koma…

Hér er dulítið sem ég bjó til fyrir tíu árum. Þá hafði ég ekki nokkurn grun um að ég ætti eftir að verða hluti af tónlistarlífi Íslands, þó ekki væri það kannski mjög áberandi eða stórvægilegt. En þarna fékk ég lánaðan rafmagnsgítar og hljómborð, var með upptökuhugbúnað sem ég tók „öryggisafrit“ af á netinu. Svo var ég með lélegan hljóðnema. Þetta var bara gert fyrir sjálfan mig og hef ég ekki hlustað á þetta í nokkur ár. Það er fullt af skemmtilegum elementum þarna í laginu og væri gaman að gera þetta aftur. Bakrödd söng Hildur Þóra, eldri dóttir mín, sem þá var 7 ára – eiginlega furðulega þroskuð rödd fyrir þennan aldur. Textinn er hreint voðalegur og hafði ég ekkert pælt í textagerð á þessum tíma en ég var að reyna að segja söguna frá sjónarhóli unglingsdrengs… og þetta var gert svo mjög með hjartanu.

Harði diskurinn sem innihélt upptökurnar að þessu eyðilagðist fyrir einhvern óþarfa klaufaskap í mér og er það mér mikill harmur að geta ekki átt við þetta. En þá er bara að bretta upp ermar og reyna að klára þetta fyrir jólin 2016 og koma því almennilegu í umferð.  Njótið endilega og virðið viljann fyrir verkið.

Að lokum

14 XLRÁ sjálfa jólanóttina,
– sagan hermir frá, –
á strák sínum þeir sátu
og störðu ljósin á.

Svo tíndust þeir í burtu,
– það tók þá frost og snjór.
Á þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.

Fyrir löngu á fjöllunum
er fennt í þeirra slóð.
– En minningarnar breytast
í myndir og ljóð.